Hver eru einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli?
Það eru mikið til þau sömu og við góðkynja stækkun á kirtlinum, þ.e. vandræði við þvaglát af ýmsum toga.
En krabbamein í blöðruhálskirtli getur andstætt góðkynja stækkun orsakað verki við liminn, yfir lífbeini eða í spönginni. Það getur hent að sæðismagn minnki og að blóð komi í sæðið. Algengt er þó, að krabbamein á byrjunarstigi gefi lítil sem engin einkenni.
Hvernig er sjúkdómurinn greindur?
Stundum finnur læknirinn harða hnúta í kirtlinum með þreyfingu um endaþarm. Þá er hægt að gera ómskoðun af kirtlinum og ef til vill taka vefjasýni, sem sent er í smásjárskoðun. Vefjasýni eru tekin með fíngerðri holnál.