Feimni og blygðunarsemi
Það sem kannski helst stendur í vegi fyrir okkur konum varðandi sjálfsstyrk í okkar kynlífi, er oftar en ekki feimni og blygðunarsemi, sem stafar ekki síst af því, að konur eru ekki aldar upp í því að tala um kynlíf eða kynfæri sín yfirleitt og eru því oft á tíðum í erfiðleikum með að koma orðum að löngunum sínum og væntingum í kynlífinu. Oftar fara konur líka í það hlutverk að þóknast makanum, fremur en að gera kröfur fyrir sig sjálfar í kynlífinu.
Þær eiga til dæmis oft í erfiðleikum með að biðja makann um að breyta til. Hafa ljósið kveikt. Nota unaðstæki ástarlífsins. Elskast annars staðar en í rúminu. Elskast fyrir framan spegil, eða hvað það er, sem ykkur langar til að gera, en kunnið ekki við að biðja um eða fara fram á.
Kynlíf er ekkert hættulegra umræðuefni en annað sem sambýlisfólk ræðir sín á milli. Aðalatriðið er, að vita sjálfur hvað maður vill og hvað ekki og geta tjáð sig heiðarlega og opið um það við maka sinn. Eitt heilræði vil ég þó gefa öllum konum, ekki hvað síst þeim ungu og það er að gera sér aldrei upp fullnægingu. Um leið og kona gerir sér upp fullnægingu, er hún komin í ákveðna sjálfheldu, sem erfitt er að snúa til baka úr.
Sumar konur hafa jafnvel verið árum saman í sambandi, þar sem þær hafa ekki fengið fullnægingu og jafnvel hefur makinn ekki hugmynd um þetta fyrr en mörgum árum seinna og þá er því slett framan í hann í skilnaðarmáli, að hann hafi hvort eð er aldrei fullnægt henni. Það er nefnilega allt í lagi að segjast ekki hafa fengið fullnægingu, hafir þú ekki fengið hana og í raun er það hvatning fyrir bæði að fara af stað í leit að leið til fullnægingar hjá báðum aðilum, sem getur orðið bæði spennandi og skemmtileg með réttu hugarfari.
Gangi ykkur vel í leitinni og góða skemmtun.