PANTA FYRIRLESTUR

Heilsa og kynlíf

Halldóra Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur

Sýkingar í leggöngum

GÓÐ RÁÐ:

 

Notaðu nýja kremið sem gefur raka og hefur mýkjandi áhrif

 • Sýkingar í leggöngum

  Undanfarið hefur mikið verið spurt um sýkingar í leggöngum, orsakir þeirra og meðferð. Oft er verið að tala um mismunandi hluti undir sama heiti, eins og um einn einstakan orsakavald sé að ræða. Það eru í raun nokkrar tegundir sem falla undir þann flokk, að vera sýkingar í leggöngum, svo sem klamedya, sveppasýkingar og svo annars konar bakteríusýkingar eins og t.d. tríkmónassýking. Einkenni sýkinga í leggöngum eru mismunandi, eftir því hver sýkillinn er. Ef útferð frá leggöngum er meiri, lyktar eða lítur öðru vísi út og viðkomandi kona hefur kláða, sviða og/eða verki, er ástæða til að leita læknis. Ef einkenni eru ómeðhöndluð, getur viðkomandi smitað aðra. Óþægileg einkenni geta horfið og tekið sig síðan upp aftur. Lyfjameðferð er mismunandi, eftir því hver sýkingin er. Engin kynmök má stunda, fyrr en að meðferð lokinni.

 • Sveppasýkingar

  Algengustu vandamál kvenna eru sveppasýkingar í leggöngum, sem orsakast af breyttu sýrustigi legganga og er það oftast vegna utanaðkomandi áhrifa, sem sýrustigið breytist, eins og t.d. í framhaldi af sýklalyfjainntöku vegna einhvers kvilla. Þegar fólk tekur inn sýklalyf, raskast flóra líkamans og eru leggöngin einkar viðkvæm í þessu tilfelli. Því er öllum nauðsynlegt, ekki síst konum, að taka asetophilusgerilinn í einhverju formi samhliða sýklalyfjagjöf, til þess að lágmarka hættuna á að sitja uppi með sveppasýkingar í framhaldi af sýklalyfjainntöku, sem oft getur verið nauðsynleg,  þó stundum sé það nú svo í þjóðfélagi hraða og streitu, að of fljótt sé gripið inn í og of oft notuð sýklalyf. Í mörgum tilfellum hefði líkaminn getað ráðið við ástandið, hefði hann fengið nauðsynlega hvíld og ró til að jafna sig og vinna bug á smávægilegri sýkingu. Afleiðing þessa oft á tíðum óþarfa inngrips er t.d. þrálát sveppasýking, sem þarfnast síðan viðeigandi meðferðar.

 • Einkenni

  Einkenni sveppasýkingar geta verið þykk, kekkjótt útferð frá leggöngum, þurrkur, særindi og mikill kláði og jafnvel getur komið gerlykt. Orsökin er þá gersveppurinn Candida albicans, sem er til staðar í líkamanum og er eðlilegur hluti af sveppaflóru legganganna og lifir þar yfirleitt án þess að valda skaða. Við sérstök skilyrði tekur hann hinsvegar að fjölga sér til óþurftar. Um 80% kvenna fá sveppasýkingu í leggöng einhverntíma á ævinni og geta karlmenn verið með sveppinn á kynfærum án einkenna, en fái þeir einkenni, geta þau verið rauð hreistruð útbrot á lim og pung og þar í kring og þau geta jafnframt náð niður eftir lærum. Ef sveppasýkingin  nær til endaþarms, veldur hún særindum, kláða og jafnvel niðurgangi og á það við um bæði kyn. Því er oft nauðsynlegt við meðhöndlun þrálátra sveppasýkinga, að meðhöndla bæði konuna og manninn samtímis. Sveppasýking er tíðari hjá sumum hópum kvenna en öðrum, einkum er hún algeng hjá konum sem eru á sýklalyfjakúrum og konum með sykursýki. Líkamsástandið er þá oft óstöðugt og sykur í þvagi skapar þá ákjósanleg skilyrði fyrir hverskyns örverur og sveppavöxt. Konum, sem eru með mikið prógesterón í líkamanum, t.d. meðan á þungun stendur, rétt fyrir tíðir og vegna inntöku hormóna, sem innihalda hátt prógesteron,  eins og t.d. getnaðarvarnapillur. Móðir með virka sveppasýkingu, getur smitað barn við fæðingu og það getur fengið sveppasýkingu í munn og háls.

 • Lykt

  Oft tala konur um vonda lykt af blæðingum og útferð og getur það í mörgum tilfellum verið fyrsta einkennið, sem konur taka eftir og eru þær flestar viðkvæmar fyrir því, að lyktin finnist af þeim. Lykt af heilbrigðum kynfærum kvenna er sölt og moskukennd og hefur hver kona sinn sérstaka ilm, sem verður sterkari við kynsvörun, egglos og blæðingar. Notkun allavega ilmefna í innlegg og bindi hefur aukist mjög á síðari árum, ásamt sápunotkun á kynfærin. Það er algjör bannvara, sem orsakar ofurnæmi og jafnvel ofnæmi fyrir bindum o.fl. með tilheyrandi eymslum og þurrki. Svita-, lyktar- og fitukirtlar eru á innra borði skapabarmanna, sem að öðru leiti eru aðallega úr fituvef. Fitukirtlarnir sjá um smurningu kynfæranna, en lyktarkirtlarnir gefa frá sér slím, sem í er smurning og lyktarefni, sem einkennir kvenfólk við kynörvun. Í skapabörmunum er líka mikið af taugaendum, sem næmir eru fyrir örvun og ertingu.

 • Aðrar sýkingar

  Aðrar sýkingar í leggöngum geta verið bakteríusýkingar vegna krosssmits frá endaþarmi, þegar bakteríur sem eru okkur eðlilegar í endaþarmi og ristli, berast yfir í leggöngin, annað hvort þegar konur strjúka frá endaþarmi fram að leggöngum, þegar þær þurrka sér eftir hægðir, eða þær berast með fingrum, eða jafnvel getnaðarlim, þegar farið er milli gata í kynmökum, frá endaþarmi yfir í leggöng.

   

  Trichomonas vaginalis (frumdýr) er sjúkdómur sem leggst bæði á konur og karla . Lífveran, sem er frumdýr úr hópi svipudýra, þrífst í leggöngum, leghálsi, þvagrás og þvagblöðru kvenna og þvagrás og blöðruhálskirtli karla. Sýkingin er algengust hjá konum, sem lifa líflegu kynlífi og skipta oft um rekkjunauta og sýkjast þá um 90% rekkjunauta þeirra líka. Hjá körlum eru einkenni fá, aðallega útferð úr þvarrás og sviði við þvaglát. Hjá konum geta einkenni verið illa lyktandi gulleit útferð, særindi og kláði í sköpum og á spönginni, auk sviða við þvaglát. Ef sýkingin nær til þvagblöðru, hljótast af því einkenni, sem minna á blöðrubólgu, tíð og brýn  þvaglát, ásamt sviða og verkjum í lok þvagláts. Báðir aðilar og allir aðrir rekkjunautar, ef um þá er að ræða, verða að gangast undir meðferð, sem oftast er með gjöf á sýklalyfinu Flagyl.

 • Að verjast sýkingum

  Sýkingar í leggöngum eru tíðastar, þegar streitu gætir hjá konum, því þá minnkar viðnámsþróttur líkamans. Of feitum konum er einnig hættara við sýkingum í leggöngum en öðrum, einkum vegna þess, að fitufellingar geta safnað í sig svita og vessa frá leggöngum. Nýr rekkjunautur, eða margir, eykur einnig líkur á sýkingu.

  Notkun smokks er besta vörnin. Mikilvægt er að gæta hreinlætis og halda sköpum hreinum og þurrum. Þurrka skal kynfæri alltaf í átt að endaþarmi, en ekki öfugt, forðast leggangaskolun, notkun svita eða ilmúða, freyðiböð, sápur og baðolíur. Nota bara hreint vatn við þvott á kynfærum. Ef konur bleyta sig ekki nægjanlega í samförum, nota þá sleipiefni. Sæðisdrepandi krem og eða froður veita vörn gegn sýkingum. Notið ekki vaselín eða áþekk krem, því að erfitt er að losna við slíkt úr kynfærum og það eykur smithættu og skemmir einnig gúmmíið í smokkum. Klæðist nærfatnaði úr bómull en ekki næloni, forðist sokkabuxur og þröngar buxur, sem halda raka að kynfærum.

Sjálfstyrking kvenna í kynlífi

GÓÐ RÁÐ:

 

WCC kremið er frábært þegar þú notar bindi á blæðingum

 • Sjálfstyrking kvenna

  Í bókinni Konan, kynreynsla kvenna eftir Sheilu Kitzinger, sem gefin var út af bókaforlaginu Iðunni 1983 í þýðungu Álfheiðar Kjartansdóttur, Guðsteins Þengilssonar  læknis og Áskels Kárasonar sálfræðings, er mjög góður kafli um það, hvernig öðlast má sjálfstraust í kynlífinu.

   

  Það er þessi bók, sem við María vorum að vitna í í Femin þættinum 29. janúar 2002. Ég ætla að birta hér beint úr bókinni stigann sem við vorum að tala um, um sjálfsstyrk kvenna í kynlífi og er hann birtur eins og í bókinni eins og stigi.

   

  Konur geta haft þennan stiga til viðmiðunar  um sinn eigin sjálfsstyrk, þá á ég við hversu opnar þær eru í umræðu um langanir sínar og tjáningu á þeim, hvar þær eru staddar og hvert gæti þá verið þeirra næsta skref, ef þær eru ekki komnar alla leið nú þegar.

   

   

 • Stigi sjálfstyrksins

  1. Stinga upp á að við notum hjálpartæki ástarinnar.
  2. Stinga upp á að ég sýni ástmanni mínum með sjálfsfróun hvernig ég næ best fullnægingu.
  3. Segja að ég vilji kynmök án samfara.
  4. Segja ástmanni mínum að ég hafi oft gert mér upp fullnægingu.
  5. Biðja ástmann minn að bíða með að koma inn í mig.
  6. Segja ástmanni mínum að ég hafi ekki fengið fullnægingu og að ég hafi ekki áhuga á henni í svipinn.
  7. Biðja ástmann minn að tala á meðan við erum að  njótast.
  8. Segja ástmanni mínum að eitthvað sem hann gerir sé nánast óþægilegt.
  9. Segja að ég kæri mig ekki um kynmök.
  10. Stinga upp á breytingum á aðferð.
  11. Segja að mér líki ekki eitthvað sem ástmaður minn gerir.
  12. Koma ástmanni mínum í skilning um að ég fer úr sambandi þegar eitthvert barnanna vaknar og fer að skæla.
  13. Lýsa áhrifum einhvers sem við erum að gera saman.
  14. Segja hvað mig langar til að ástmaður minn geri.
  15. Lýsa tilfinningum mínum um kynlíf.
  16. Útskýra fyrir ástmanni mínum hvernig ástríður mínar breytast á einstökum tímum mánaðarins.
  17. Segja að ég njóti einhvers sem ástmaður minn gerir.

   

 • Hvað gerum við?

  Það sem kannski helst stendur í vegi fyrir okkur konum varðandi sjálfsstyrk í okkar kynlífi, er oftar en ekki feimni og blygðunarsemi, sem stafar ekki síst af því, að konur eru ekki aldar upp í því að tala um kynlíf eða kynfæri sín yfirleitt og eru því oft á tíðum í erfiðleikum með að koma orðum að löngunum sínum og væntingum í kynlífinu. Oftar fara konur líka í það hlutverk að þóknast makanum, fremur en að gera kröfur fyrir sig sjálfar í kynlífinu.

   

  Þær eiga til dæmis oft í erfiðleikum með að biðja makann um að breyta til. Hafa ljósið kveikt. Nota unaðstæki ástarlífsins. Elskast annars staðar en í rúminu. Elskast fyrir framan spegil, eða hvað það er, sem ykkur langar til að gera, en kunnið ekki við að biðja um eða fara fram á.

   

  Kynlíf er ekkert hættulegra umræðuefni en annað sem sambýlisfólk ræðir sín á milli. Aðalatriðið er, að vita sjálfur hvað maður vill og hvað ekki og geta tjáð sig heiðarlega og opið um það við maka sinn.

   

  Eitt heilræði vil ég þó gefa öllum konum, ekki hvað síst þeim ungu og það er að gera sér aldrei upp fullnægingu. Um leið og kona gerir sér upp fullnægingu, er hún komin í ákveðna sjálfheldu, sem erfitt er að snúa til baka úr. Sumar konur hafa jafnvel verið árum saman í sambandi, þar sem þær hafa ekki fengið fullnægingu og jafnvel hefur makinn ekki hugmynd um þetta fyrr en mörgum árum seinna og þá er því slett framan í hann í skilnaðarmáli, að hann hafi hvort eð er aldrei fullnægt henni.

   

  Það er nefnilega allt í lagi að segjast ekki hafa fengið fullnægingu, hafir þú ekki fengið hana og í raun er það hvatning fyrir bæði að fara af stað í leit að leið til fullnægingar hjá báðum aðilum, sem getur orðið bæði spennandi og skemmtileg með réttu hugarfari.

   

  Gangi ykkur vel í leitinni og góða skemmtun.

Sjaldgæfari þvagfæraóþægindi

GÓÐ RÁÐ:

 

Gefur vellíðan og mýkt eftir mikla hreyfingu

 • Bólga í blöðruhálskirtli

  Hver eru einkenni bólgu í blöðruhálskirtli ?

  Einkenni bráðabólgu eru verkir í blöðruhálskirtli. Þeir koma fram sem verkir í klofi, endaþarmi og yfir lífbeini. Einnig fylgir þessu oft hiti, útferð frá þvagrás og sviði og erfiðleikar við þvaglát.

   

  Krónísk bólga í blöðruhálskirtli veldur þyngslatilfinningu á svæðinu við blöðruhálskirtilinn, sem getur leitt niður í eistun. Einnig getur borið á verk í lendum, sem leiðir niður fótleggi.

   

  Hvað orsakar bólguna ?

  Bólgan getur verið í bráðaformi eða krónísku formi. Algengasta orsök bráðabólgu er sýking af völdum saurgerla, eða sýking sem smitast við kynlíf. Bráð bakteríubólga í blöðruhálskirtli er fremur sjaldgæfur sjúkdómur.

   

  Krónísk bólga í blöðruhálskirtli er algengari, en minna er vitað um orsakir hennar.

   

  Hver er meðferð við bólgu í blöðruhálskirtli ?

  Bráð bólga í blöðruhálskirtli er meðhöndluð með sýklalyfjum. Krónísk bólga í blöðruhálskirtli er oftast meðhöndluð með heitum setböðum og nuddi á blöðruhálskirtil og/eða lyfjum. Það er læknirinn sem sér um nuddið; hann nuddar kirtilinn gegnum endaþarminn. Þetta er hættulaus sjúkdómur, sem læknast tíðum án meðferðar.

 • Krabbamein í blöðruhálskirtli

  Hver eru einkenni krabbameins í blöðruhálskirtli ?

  Það eru mikið til þau sömu og við góðkynja stækkun á kirtlinum, þ.e. vandræði við þvaglát af ýmsum toga. En krabbamein í blöðruhálskirtli getur andstætt góðkynja stækkun orsakað verki við liminn, yfir lífbeini eða í spönginni. Það getur hent að sæðismagn minnki og að blóð komi í sæðið. Algengt er þó, að krabbamein á byrjunarstigi gefi lítil sem engin einkenni.

   

  Hvernig er sjúkdómurinn greindur ?

  Stundum finnur læknirinn harða hnúta í kirtlinum með þreyfingu um endaþarm. Þá er hægt að gera ómskoðun af kirtlinum og ef til vill taka vefjasýni, sem sent er í smásjárskoðun. Vefjasýni eru tekin með fíngerðri holnál.

 • Hvernig er krabbamein í blöðruhálskirtli meðhöndlað ?

  Skurðaðgerð

  Þegar krabbameinið veldur þvagtregðu, er gerð nákvæmlega eins aðgerð og við góðkynja stækkun kirtilsins, það er að segja kirtilinn er heflaður út gegnum þvagrásina (TURP).

   

  Þegar krabbamein í blöðruhálskirtli finnst snemma og er staðbundið er hægt að fjarlægja allan kirtilinn og þar með krabbameinið og lækna þannig sjúklinginn. Einnig er hægt  að geisla kirtilinn utanfrá og drepa þannig krabbameinsfrumurnar.

   

  Í mörgum tilfellum er sjúklingi gefið lyf, sem bælir framleiðslu karlkynshormónsins og dregur það úr frekari vexti krabbameinsins, þannig að útbreiðsluhættan minnkar.

   

  Hverjar eru batahorfur krabbameins í blöðruhálskirtli ?

  Krabbamein í blöðruhálskirtli er töluvert ólíkt öðrum formum krabbameins. Í sumum tilvikum læknast það algjörlega og oft er hægt að halda því niðri árum saman, jafnvel þó það hafi upphaflega náð að breiðast út.

   

  Láttu lækni skoða þig ef þvaglát veldur þér óþægindum. Læknirinn getur skoðað kitilinn, tekið blóð- og þvagprufur og ákvarðað hvort rétt sé að bíða og sjá til, meðhöndla með lyfjum eða jafnvel huga að aðgerð. Hann getur líka greint, hvort krabbamein sé á ferðinni.

   

  Ef þú hefur eftirhreytur (dropar leka eftir að búið er að pissa), getur hjálpað að nudda þvagrásina efst og aftan til á  limnum alveg upp við spöngina; við það tæmist þvagrásin í mörgum tilvikum. Einnig hefur mönnum reynst vel að sitja þegar þeir pissa og náð þannig betri tæmingu.

   

  Forðastu kaffi, te og áfengi á kvöldin. Best er að drekka lítinn vökva á kvöldin, en drekka frekar að deginum.

   

  Upplýsingar eru úr bæklingi frá Pharmaco hf. “Ertu karlmaður – áttu í vandræðum með þvaglát ? Ýmislegt er til ráða”

  Bo Jesper Hansen, ph.d. læknir og Dr. Med. Peter Metz, þvagfæraskurðlæknir.

Tindar ehf. kt. 550502-7120 vsk nr. 77444

© 2017 HALLDÓRA BJARNADÓTTIR - ALLUR RÉTTUR ÁSKILINN.